Norvík styrkir ÍF næstu þrjú árin


Styrktar- og menningarsjóður Norvíkur og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) hafa gert með sér samstarfssamning til þriggja ára um stuðning sjóðsins við starfsemi sambandsins.
 
Tilgangur Styrktar- og menningarsjóðs Norvíkur er að styrkja verkefni eða félög sem snúa t.a.m. að menningu, íþróttum og forvarnarstarfi eða öðru því sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni.  Með þeim hætti vill Norvík hf. efla tengsl fyrirtækisins og dótturfélaga þess við samfélagið og það umhverfi sem félagið starfar í.
 
Samningur Norvíkur og ÍF er einn nokkra sem ÍF hefur gert að undanförnu m.a. vegna þátttöku Íslands í Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í London í september mánuði n.k.  Árangur fatlaðra íþróttamanna á undanförnum árum hefur vakið verðskuldaða athygli.  Íslenska íþróttafólkið hefur staðið sig afar vel á Ólympíumótum sem og öðrum stórmótum fatlaðra.  Þessi árangur er afrakstur markvissrar vinnu en Íþróttasamband fatlaðra kappkostar að búa keppendur sína sem best undir þau verkefni sem framundan eru.  Langtímasamingur sem þessi gerir sambandinu kleift að skapa afreksfólkinu bestu mögulegu skilyrði til að hámarksárangur náist.
 
Á myndinni eru Þórður Árni Hjaltestd, varaformaður ÍF (t.v.) og Steinunn Jónsdóttir formaður Styrktar- og menningarsjóðs Norvíkur (t.h.) að handsala hinn nýja samning.