Ingeborg bætti Íslandsmetið um 59 sentimetra


Ingeborg Eide Garðarsdóttir hafnaði í 8. sæti í spjótkasti kvenna í dag á EM fatlaðra í Stadskanaal þegar hún bætti Íslandsmetið í flokki F37 um heila 59 sentimetra. Fyrra metið var frá 9. júní síðastliðnum þegar Ingeborg kastaði slétta 15m á Íslandsmóti ÍF. Hún bætti nú um betur og hennar besta kast reyndist 15,59m.

Baldur Ævar Baldursson náði ekki sínu besta kasti í dag þegar hann keppti í kúluvarpi í flokki F37. Baldur kastaði lengst 10,72m. en til samanburðar kastaði hann 11,03m. á Íslandsmóti ÍF fyrr í mánuðinum. Baldur lauk keppni í 6. sæti en sigurvegarinn Bilius Mindaugas frá Litháen varpaði kúlunni 14,24m.

Öðrum keppnisdegi íslenska hópsins er því lokið hér í Stadskanaal en fjörið heldur áfram á morgun þar sem stöllurnar Hulda Sigurjónsdóttir og Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir verða í eldlínunni.

Myndasafn frá öðrum keppnisdegi
Video frá öðrum keppnisdegi

Mynd/ Jón Björn: Ingeborg Eide kastaði spjótinu 15,59m sem er nýtt Íslandsmet fatlaðra.