Frjálsíþróttafólkið fór á kostum í veðurblíðunni


Íslandsmót ÍF í frjálsum fór fram á Laugardalsvelli við kjöraðstæður laugardaginn 9. júní. Óhætt er að segja að frjálsíþróttafólkið hafi mætt einbeitt til keppni en hvert metið á fætur öðru var slegið í blíðviðrinu. Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra þeirra sem lögðu framkvæmdinni lið og einnig vallarstarfsmönnum en allur aðbúnaður og aðkoma var hin glæsilegasta fyrir keppendur í dag og þjóðarleikvangurinn svo sannarlega í spariklæðunum.


Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir fór mikinn þegar hún byrjaði á því að bæta Íslandsmetið í 100m hlaupi í flokki T37 er hún kom í mark á tímanum 15,37 sek. Þá stökk Matthildur 4,28m í langstökki sem skilar henni inn í 2. sæti heimslistans og aðeins 5sm frá Evrópumetinu! Strax að móti loknu brunaði Matthildur út í Hafnarfjörð þar sem hún varð silfurverðlaunahafi með ÍFR í bikarkeppni ÍF í sundi. Annasamur dagur að baki hjá þessum unga og efnilega íþróttamanni.

Þá var komið að Helga Sveinssyni sem stökk 5,15m í langstökki en það er næstlengsta stökk ársins í flokki F42 og jafnframt nýtt og glæsilegt Íslandsmet. Helgi bætti einnig tíma sinn í 100m hlaupi er hann kom í mark á tímanum 14,47 sek. en vindur var of mikill og hlaupið fæst því ekki gilt.

Gleðigjafinn að norðan, Kristófer Sigmarsson úr Eik, setti magnað Íslandsmet í langstökki í dag í flokki F20, flokki þroskahamlaðra er hann stökk 5,64m. Eins og kappans var von og vísa fagnaði hann metinu innilega en Kristófer er mikill keppnismaður og afar gaman að fylgjast með honum á frjálsíþróttamótum þar sem krafturinn í kappanum drífur ekki bara hann sjálfan áfram heldur einnig aðra keppendur. Magnaður íþróttamaður hér á ferðinni. Kristófer gaf heldur ekki tommu eftir í 100m hlaupinu og kom í mark á tímanum 12,56 sek!

Suðurlandið átti að sjálfsögðu sinn fulltrúa er Hulda Sigurjónsdóttir kastaði kúlunni 9,00m í flokki F20. Hulda hefur stefnt lengi að þessu marki og tekur þetta góða kast með sér til Hollands þar sem hún verður fulltrúi Íslands á Evrópumeistaramóti fatlaðra ásamt fleirum.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir úr Eik á Akureyri keppir í flokki sjónskertra en þessi ungi frjálsíþróttamaður er í stöðugri bætinu. Hún hljóp 100 metrana á 15,48 sek. í dag og varpaði kúlunni 7,19 metra.

Baldur Ævar Baldursson náði svo sínu besta stökki í ár er hann landaði 5,18 sm. í langstökkinu. Fjölnissprengjan Gabríella Oddrún Oddsdóttir stóð sig vel í dag og verður athyglisvert að fylgjast með henni í framtíðinni sem og Sigurjóni Sigtryggssyni en þeir fullyrða á Siglufirði að kappinn sé með leðurlungu enda hljóp hann einstaklega vel í 400m hlaupi dagsins.

Mótið var skemmtilegt og veðurguðirnir sáttir við okkur, létu sól og geisla umvefja keppendur og mótsgesti. Miklar framfarir að sjá hjá keppendum og verður gaman að fylgjast með hvað EM-hópurinn gerir í Hollandi síðar í mánuðinum en hann skipa: Helgi Sveinsson, Baldur Ævar Baldursson, Davíð Jónsson, Ingeborg Eide Garðarsdóttir, Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir og Hulda Sigurjónsdóttir.

Heildarúrslit mótsins verða sett inn á heimasíðu ÍF eins fljótt og auðið er.

Mynd/ JBÓ: Helgi Sveinsson stökk 5,15 sm í langstökki F42 í dag. Það er næstlengsta stökkið í hans flokki þetta árið.