Matthildur með silfurverðlaun í langstökki


Þá hefur íslenski frjálsíþróttahópurinn lokið þátttöku sinni á opna frjálsíþróttamótinu í Túnis en það var Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir frá ÍFR sem lokaði keppninni fyrir Íslands hönd er hún vann til silfurverðlauna í gær.

Matthildur stökk lengst 4,10m. í langstökki sem tryggði henni annað sætið en sigurvegarinn, heimakona frá Túnis, stökk 4.13m. svo um hörkukeppni var að ræða.

Árangur Matthildar í langstökkinu dugir henni inn á Evrópumeistaramótið í Hollandi síðar í sumar og þá var lágmarkið fyrir Ólympíumót fatlaðra í greininni 3,85m. og fór Matthildur vel yfir það.

Íslenski hópurinn kemur heim í kvöld en það er engin lognmolla framundan enda Íslandsmót ÍF í frjálsum annað kvöld, föstudag, í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal og hefst keppnin kl. 17:00.

Mynd/ Matthildur Ylfa tekur við silfurverðlaunum sínum í Túnis í gær.