Ingeborg með brons í kúlu - Góður gangur hjá íslenska hópnum í Túnis


Öðrum keppnisdegi íslenska frjálsíþróttahópsins er nú lokið í Túnis og kepptu allir fjórir frjálsíþróttamennirnir í dag.

Ingeborg Eide Garðarsdóttir úr FH náði þriðja sæti í kúluvarpi í flokki F37 með því að kasta 6,96m og setja persónulegt met og um leið Íslandsmet í sínum flokki. Árangurinn tryggir henni farseðilinn á EM.

Helgi Sveinsson frá Ármanni hafnaði í 4. sæti í langstökki í flokki F42 er hann stökk 4,22 metra. Þar með hefur Íslendingur í fyrsta sinn tekið þátt í langstökki af gervifæti frá Össuri með koltrefjafjöður. Helgi kláraði svo með því að hlaupa sitt fyrsta 200m spretthlaup á tímanum 34,63 s. Hann hefur þar með lokið sínu fyrsta alþjóðlega frjálsíþróttamóti og tryggði sér farseðil á EM í Hollandi og gilt lágmark fyrir Ólympíumótið í London.

Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir ÍFR hljóp 200m í flokki T37 á 33,76sek. og varð í 4. sæti, undir EM en ÓM lágmarki er 33,45s. Matthildur keppir í langstökki á morgun.

Baldur Ævar Baldursson frá Snerpu stökk inn á EM með því að ná 5,01m í langstökki í löglegum vindi.

Mynd/ Ingeborg með bronsverðlaunin í kúluvarpi.