Fjórir íslenskir keppendur mættir til Túnis


Í gær, föstudag, fóru fjórir fatlaðir frjálsíþróttamenn frá Íslandi á alþjóðlegt mót í Túnis. Um er að ræða tvo keppendur í karlaflokki og tvo keppendur í kvennaflokki. Kári Jónsson landsliðsþjálfari ÍF í frjálsum og Ásta Katrín Helgadóttir aðstoðarlandsliðsþjálfari ÍF í frjálsum fara fyrir hópnum ytra.
 
Keppendur:
Helgi Sveinsson – Ármann, 100m, 200m, langstökk
Baldur Ævar Baldursson – Snerpa, langstökk, kúluvarp
Ingeborg Eide Garðarsdóttir – FH, 100m, kúluvarp, langstökk
Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir – ÍFR, 100m, 200m, langstökk
 
Öll fjögur reyna þau að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í frjálsum sem fram fer í Hollandi síðar í sumar en á mótinu í Túnis verður einnig hægt að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíumótinu í London. Öll fjögur ásamt fleira frjálsíþróttafólki skipa þessir íþróttamenn æfingahóp sem hefur verið undir stjórn Kára Jónssonar á þessu tímabili. Helgi Sveinsson og Matthildur Ylfa munu taka þátt í sinni fyrstu alþjóðlegu keppni fyrir hönd Íslands en um leið gangast þau undir flokkun þar sem skorið er úr um í hvaða fötlunarflokki þau keppa.

Mynd/ Ingeborg Eide Garðarsdóttir, FH, er á meðal íslensku keppendanna í Túnis.