Hálft ár þangað til Ólympíumótið hefst í London


 Í dag, á sjálfan hlaupársdaginn 29. febrúar, er hálft ár þangað til Ólympíumót fatlaðra hefst í London. Fatlaðir íslenskir íþróttamenn leggja nú nótt við nýtan dag til að freista þess að öðlast þátttökurétt á mótinu. 

Alls hafa fjórir sundmenn synt undir tilskyldum lágmörkum inn á mótið og koma þar með til greina sem mögulegir þátttakendur í London 2012. Sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson fer þar fremstur í flokki þar sem hann er efstur Íslendinga á sínum heimslista, lista sundmanna í flokki S14, flokki þroskahamlaðra.

Ólympíumót fatlaðra er frábrugðið Ólympíuleikunum að því leiti að færri keppendur öðlast þátttökurétt á mótinu eða um 4000 talsins. Sem dæmi þá verða 600 sundmenn sem komast að á Ólympíumóti fatlaðra en um 800 sundmenn hafa þegar náð lágmörkum.

Þann 20. maí lýkur þeim tíma sem íþróttamenn í öllum greinum hafa til þess að ná lágmörkum fyrir keppni í London. Eftir 20. maí verður hverri þjóð úthlutaður svokallaður ,,kvóti“ með tilliti til stöðu íþróttamanna samkvæmt styrkleikalista í hverri grein.

Íþróttasamband fatlaðra gerir ráð fyrir því að fara með tvo til fimm keppendur til London en vissulega væri það mikið ánægjuefni ef fleiri íþróttamenn næðu lágmörkum fyrir þennan stórviðburð.