Æfingabúðir í boccia: Allir spenntir fyrir NM


Æfingabúðir í boccia fóru fram um síðustu helgi en þær eru liður í undirbúningi þeirra sem valdir hafa verið fyrir Íslands hönd í þátttöku á Norðurlandamótinu í boccia sem fram fer í Laugardalshöll dagana 11.-13. maí næstkomandi. Æfingabúðirnar fóru fram í íþróttahúsi Hlíðarskóla og Laugardalshöll og sagði Karl Þorsteinsson boccianefndarmaður ÍF að helgi hefði gengið ágætlega.

,,Við fórum aðeins í mismuninn á Norðurlandareglunum og alþjóðareglunum í boccia, æfðum okkur í að spila með tímatöku og stilltum saman strengi. Það var skipað í sveitir og þær þurfa að stilla sig saman enda koma keppendur úr mismunandi félögum," sagði Karl og sagði hug vera í keppendum enda missti Ísland af NM 2010. Þá var það eitt stykki eldgos sem hindraði för en því er ekki að skipta núna, að minnsta kosti ekki þegar litið er til þess að koma íslensku sveitinni á áfangastað.

,,Við misstum af NM 2010 og því eru allir spenntir að sýna sig og sanna eftir fjögurra ára hlé frá NM," sagði Karl en NM er haldið á tveggja ára fresti. ,,Að þessu sinni verða fleiri sem taka þátt fyrir Ísland en þegar fyrirhugað var að senda hópinn til Danmerkur 2010. Við erum á heimavelli núna og eigum ekki minni séns en aðrir á góðum árangri," sagði Karl og kvaðst m.a. spenntur fyrir að sjá keppnina í rennuflokki en þar eiga Íslendingar frambærilega sveit sem og sterka spilara í flokkum 4 og 3.
 
Mynd/ Haukur Gunnarsson, ÍFR, einbeittur við æfingabúðirnar.

Myndband frá æfingabúðunum