Gámafélagið til liðs við ÍF fyrir lokasprettinn til London


,,..nú falla öll vötn til Dýrafjarðar," lét Vésteinn fóstbróðir Gísla hafa eftir sér í Gísla sögu Súrssonar. Öll vötn Íþróttasambands fatlaðra falla nú til London ef svo má að orði komast og undirbúningur stendur yfir víða vegna Ólympíumótsins sem hefst í lok ágústmánaðar. Þátttaka í svona risavöxnu verkefni er kostnaðarsöm og nú hefur Gámafélagið bæst í hóp styrktaraðila ÍF vegna Ólympíuársins.

Gísli Jóhannsson verkefnastjóri sölumála hjá Gámafélaginu afhenti Ólafi Magnússyni framkvæmdastjóra afreks- og fjármálasviðs ÍF styrk á dögunum og sagði Ólafur við það tækifæri að styrkurinn væri afar vel þeginn. Gámafélagið hefur stutt myndarlega við íþróttastarf fatlaðra og má þess geta að á árinu 2011 styrkti félagið borðtenniskappann Jóhann Rúnar Kristjánsson myndarlega.

Íslenska Gámafélagið leitast við að bjóða viðskiptavinum sínum uppá heildarlausn á sviði flestrar umhverfisþjónustu. Það getur verið allt frá því að bjóða uppá ráðgjöf á sviði flokkunar og endurvinnslu, losun úrgángs, götusópun, snjómokstur, sláttur ásamt því að reka öflugustu véla- og tækjaleigu landsins.

Mynd/ Gísli t.v. og Ólafur t.h. við afhendingu styrksins.