ÍF og Icelandair endurnýja samstarfssamning sinn


Nýlega endurnýjuðu Icelandair og Íþróttasamband fatlaðra samstarfssamning um ferðir íþróttafólks sambandsins á flugleiðum Icelandair.

Samningurinn, sem gildir til eins árs, felur meðal annars í sér að allt íþróttafólk og aðrir sem ferðast á vegum sambandsins til og frá Íslandi fljúgi með Icelandair á hagstæðustu fargjöldum sem bjóðast. Einnig fær Íþróttasamband fatlaðra ákveðna styrktarupphæð árlega greidda inn á viðskiptareikning sinn auk gjafabréfa í hlutfalli viðskipta sinna við Icelandair.

Icelandair hefur í gegnum tíðina verið öflugur bakhjarl íþrótta á Íslandi og hefur  Íþróttasamband fatlaðra notið góðs af því.  Þannig hefur Icelandair allar götur síðan 1994 verið einn af aðalsamstarfs og stuðningsaðilum Íþróttasambands fatlaðra og þannig gert fötluðu íþróttafólki kleift að halda hróðri Íslands á lofti víða um heim.

Mynd/ Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Þorvarður Guðlaugsson svæðisstjóri Icelandair á Íslandi handsala nýja samninginn.