Jói í 9.-12. sæti í Króatíu


Jóhann Rúnar Kristjánsson keppti um helgina á Evrópumeistaramótinu í borðtennis sem fram fór í Króatíu. Jói keppir í flokki MS2 eða í sitjandi flokki 2. Jóhann gerði vel og komst upp úr riðlinum sínum með einum sigri og einum tapleik.

Í fyrsta leik lá Jóhann gegn Frakkanum Stephane Molliens sem í dag leikur til úrslita um Evrópumeistaratitilinn. Í öðrum leiknum vann hann Ítalann Federico Corsara 3-2 og komst upp úr riðlinum.

Í útsláttarkeppninni eftir riðlakeppnina mættust Jóhann og Fabien Lamirault þar sem Lamirault hafði betur eftir mikinn slag en hann hefur þegar tryggt sér bronsverðlaun á mótinu.

Jóhann er væntanlegur aftur til landsins á miðvikudag.