Íslensku keppendurnir á Global Games þau Jón Margeir Sverrisson og Kolbrún Alda Stefánsdóttir hafa nú lokið þátttöku í mótinu. Jón synti sína síðustu grein í dag þar sem hann vann til gullverðlauna!
Jón keppti í 1500m. skriðsundi þar sem hann kom í bakkann á tímanum 17:28,99 mín. og bætti þar með sitt eigið Íslandsmet um 24,9 sekúndur! Frábær árangur hjá kappanum.
Jón og Kolbrún stóðu sig með mikilli prýði ytra, Jón vann til tveggja silfurverðlauna og svo gullverðlauna en Kolbrún var að bæta sig en bæði stefna hraðbyr að þátttöku í Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í London á næsta ári.
Fjölda mynda frá Global Games má finna á Facebook-síðu ÍF en Sverrir Gíslason var staddur ytra og tók meðfylgjandi mynd þar sem Jón tók við gullverðlaununum í dag.