Tuttugu þátttakendur á námskeiði í þjálfun fatlaðra barna


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Námskeið var haldið á vegum Íþróttasambands fatlaðra  um helgina þar sem megininntak var þjálfun fatlaðra barna og kynning á EIPET SPORT.

Ingi Þór Einarsson, formaður sundnefndar ÍF, var umsjónarmaður námskeiðsins og sá um almennan hluta þess sem fram fór á föstudagskvöld og laugardagsmorgun.

Almenni hlutinn var fyrir alla þjálfara en eftir hádegi á laugardeginum var sérgreinahluti þar sem þjálfarar skiptust í hópa eftir greinum.  Sumir fóru í verklegar æfingar og aðrir voru í umræðuhópum. Þátttakendur á námskeiðinu voru 20 og komu úr mismunandi íþróttagreinum, boccia, bogfimi, frjálsum íþróttum, fimleikum, sundi og skautaíþróttum. Margir þjálfarar sem þarna voru hafa ekki starfað innan raða ÍF en aðrir þjálfa hjá aðildarfélögum ÍF.

Námskeiðið tókst mjög vel og  allir þátttakendur fengu skjal í lok námskeiðs þar sem staðfest var þátttaka þeirra á fyrsta námskeiðinu sem tengist kynningu á EIPET SPORT á Íslandi.  Þar er um að ræða samstarfsverkefni Evrópulanda og Ísland hefur hug á að  taka virkan þátt í því samstarfi.

Mynd/ Hópurinn sem sótti námskeiðið um helgina.