Þeir Jóhann Rúnar Kristjánsson, Viðar Árnason og Tómas Björnsson eru komnir heim frá opna breska meistaramótinu í borðtennis sem fram fór um helgina. Strákarnir komust ekki upp úr sínum riðlum í einstaklingskeppninni og ekki heldur í liðakeppninni.
Í liðakeppninni lék Jóhann með Martin Ludrovsky frá Slóvakíu. Þeir töpuðu naumlega tveimur fyrstu leikjunum sínum 2-3 en unnu síðasta leikinn 3-1 og höfnuðu í 3. sæti af fjórum liðum í riðlinum.
Þá fundust ekki meðspilarar fyrir Tómas Björnsson og var hópurinn afar ósáttur með þá niðurstöðu en það þýddi að Tómas tók ekki þátt í liðakeppninni og verður Bretunum seint þakkað fyrir þá niðurstöðu.
Viðar Árnason og Bandaríkjamaðurinn Andre Scott voru í þriggja liða riðli og töpuðu báðum leikjunum sínum 3-0 og komust því ekki áfram. Viðar gerði þó vel og vann eina lotu gegn sameiginlegu liði Noregs og Bretlands þegar hann náði í lotu gegn Scott Robinson.
Árnagurinn um helgina dugir því ekki fyrir Jóhann til að komast inn á Ólympíumót fatlaðra í London á næsta ári en einhver stig söfnuðust þó í ferðinni. Þau stig duga ekki til að koma Jóhanni upp í 16. sætið sem gefur síðasta örugga plássið í London svo leitin að sæti á Ólympíumótinu heldur áfram hjá Jóhanni.
Mynd/ Jóhann Rúnar Kristjánsson