Ólafur Ragnar afhenti Jóni Margeiri styrk úr Skötumessunni


Jón Margeir Sverrisson sundmaður úr Ösp/Fjölni hlaut á dögunum veglegan styrk sem afhentur var af Forseta Íslands, Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni og Ásmundi Friðrikssyni bæjarstjóra í Garði sem er upphafsmaður þessa verkefnis.

Um er að ræða styrk frá svokallaðri "Skötumessu" sem haldin er í bæjarfélaginu Garði á Suðurnesjum. Þar hafa menn komið á þeim sið að halda Skötumessu á Þorláksmessu að sumri, svona rétt til að vega upp á móti öllum grillveislunum. Þessi samkoma hefur stækkað ár frá ári og þetta árið mættu um 350 manns.

Margir leggja hönd á plóginn til að gera þetta að veruleika og nú seinni ár hafa margir landsþekktir skemmtikraftar lagt málefninu lið.

Allur ágóði af Skötumessunni fer í styrki til góðra málefna og þetta árið hlutu meðal annars Íþróttafélagið Nes, verkefnið Á allra vörum og Jón Margeir styrki.