Arnu á Íslandi: Stefnan sett á gull í London


Síðustu daga hefur Suður-Afríski hlauparinn Arnu Fourie verið hérlendis við prófanir og ýmsar rannsóknir hjá Össuri sem liður í undirbúningi kappans fyrir Ólympíumót fatlaðra í London á næsta ári. Arnu er meðlimur í hinum eftirsótta hóp Team Össur og hittir þar fyrir samlanda sinn Oscar Pistorius. Báðir eru þeir Arnu og Oscar hlauparar í fötlunarflokki T44 og mættust síðast á Heimsmeistaramótinu í janúar. Oscar hafnaði í 2. sæti mótsins og Arnu í 4. sæti og ljóst að baráttan um gullið í London 2012 í 100m. hlaupinu verður gríðarlega hörð.

Arnu hefur verið meðlimur í Team Össur í næstum því tvö ár og kom hingað til að prófa mismunandi fætur og fara nánar ofan í saumana á hvað henti sér best en vitaskuld keppir kappinn á stoðtækjum frá Össuri. Allt sem Arnu hefur gert á undanförnum mánuðum og mun gera á næstu mánuðum markast af Ólympíumótinu á næsta ári. Hann keppti á sínu fyrsta Ólympíumóti í Peking 2008 og var hvergi banginn þegar heimasíða ÍF náði af honum stuttu tali í höfuðstöðvum Össurar í þessari viku, hann ætlar sér í fulla baráttu um gullið en Arnu keppir í 100m. og 200m. hlaupi.

Hópurinn Team Össur er skipaður úrvalsíþróttamönnum á borð við Arnu, Oscar Pistorius og April Holmes svo einhverjir séu nefndir en hæfileikar einstaklinganna sem hópinn skipa þykja vel til þess fallnir að auka vitund almennings um að þeir aðilar sem verða fyrir því að missa útlim eða fæðast án hans geti vissulega lifað virku og fullnægjandi lífi.

Smellið hér til að sjá viðtalið við Arnu

Þá munu fatlaðir einnig taka þátt í Demantamótinu í Brussel um helgina og þar verður sérstaklega hlaupið í 200m. hlaupi í flokki T44. Arnu verður á meðal keppenda sem og Jerome Singleton sem varð í janúar fyrsti maðurinn í sjö ár í íþróttum fatlaðra til þess að leggja Oscar Pistorius að velli í 100m. hlaupi.

Mynd/ Arnu ásamt þeim Hafliða Hafþórssyni og Hilmari Birni Zoega í höfuðstöðvum Össurar fyrr í þessari viku. Hafliði og Hilmar eru þegar komnir á fullt í frjálsar og æfa tvisvar sinnum í viku í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.