Búist við rúmlega 4000 keppendum í London


Ólympíumót fatlaðra fer fram í London á næsta ári og er búist við að þátttökumet verði slegið en Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) gerir ráð fyrir um 4200 keppendum frá 150 löndum á mótinu.

,,Okkar íþróttamenn munu heilla milljarða, vera innblástur fyrir milljónir og á endanum leiða til þeirrar samfélagsbreytingar sem gerir fólki betur kleift að skynja hverju einstaklingur með fötlun getur áorkað,“ sagði Sir Philip Craven formaður IPC.

,,Nú er minna en ár þangað til Ólympíumótið hefst í London og spennan magnast frá degi til dags. Ég trúi því að Ólympíumótið geti orðið jafn gott og leikarnir í Peking, ef ekki betri,“ sagði Craven og bætti við að hann teldi ekki líklegt að aðeins Bretar myndu fjölmenna á leikana þar sem London væri mjög miðsvæðis í Evrópu. Heimamenn mættu því búast við samkeppni á áhorfendapöllunum líka.

Ólympíumót fatlaðra fer fram dagana 29. ágúst – 9. september á næsta ári og er hægt að kaupa miða á viðburðina hér:
www.tickets.london2012.com

Aðrar athyglisverðar síður hjá IPC:
www.paralympic.org – heimasíða IPC
www.ParalympicSport.TV – vefsjónvarp IPC

Mynd/ Ólympíuleikvangurinn í London.