Starfsmenn Össurar hlupu um 1200 kílómetra til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tæplega 100 Össurar starfsmenn skráðu sig til þátttöku í Reykjavíkurmaraþon 2011 sem telst metþátttaka innan fyrirtækisins.  Tveir starfsmenn þreyttu heilt maraþon eða 42 km, 15 starfsmenn tóku þátt í hálfmaraþoni, 57 í 10 km, 31 í skemmtiskokki og fjöldamargir hlupu með börnum sínum í Latabæjarhlaupinu síðar um daginn. Af hverjum kílómeter sem hlaupin var runnu 500 krónur til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra. 

Afreksíþróttakonan Amy Palmiero-Winters þreytti tvöfalt maraþon til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra. Hún hóf fyrra hlaupið klukkan fjögur um morguninn og lauk því á rétt rúmum fjórum klukkutímum, en lagði svo af stað aftur með maraþonhlaupurunum kl. 8.40 og kláraði hún þá seinna hlaupið sitt á tímanum 5:18:20.
 
Stemningin sem myndaðist í miðbæ Reykjavíkur á laugardeginum var gífurlega góð enda lék veðrið við hlauparana.  Össurar starfsmenn söfnuðust  saman fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík og notuðu tímann fyrir hlaupið til að teygja á og koma sér í gírinn og að sjálfsögðu gáfu þeir sér líka smá tíma til að stilla sér upp fyrir myndatöku.
 
Í heildina söfnuðust 600.000 kr. til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra sem þakkar kærlega fyrir sig og fagnar þessu óeigingjarna framtaki starfsmanna Össurar. Í síðustu viku fór svo Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF og tók við styrknum.

Mynd/ Starfsmenn Össurar hlupu 1200 km til styrktar ÍF í Reykjavíkurmaraþoninu.