Pistorius komst í undanúrslit á HM


Oscar Pistorius frá Suður-Afríku, fyrsti frjálsíþróttamaðurinn án útlims sem keppir á heimsmeistaramóti, komst um helgina í undanúrslit í 400 metra hlaupi karla á HM í Daegu í Suður-Kóreu. Þetta kom fram hjá www.mbl.is um helgina.

Pistorius, sem er með gervifætur frá stoðtækjafyrirtækinu Össuri, var um tíma fyrstur í sínum riðli en endaði í þriðja sæti á næstbesta tíma sem hann hefur náð, 45,39 sekúndum. Chris Brown, heimsmeistarinn innanhúss, og Martyn Rooney frá Bretlandi fóru framúr honum á lokasprettinum og hlupu á 45,29 og 45,30 sekúndum.

„Ég hef lagt mikið á mig til að komast hingað," sagði Pistorius. „Og það er ótrúlegt að geta hlaupið."

Bestum tíma allra keppenda náði heimsmeistarinn LaShawn Merritt frá Bandaríkjunum sem hljóp á 44,35 sekúndum, en það er besti tími sem náðst hefur í undanrásum 400 m hlaups á HM frá upphafi, og besti tími ársins í greininni.

Tíminn hjá Pistorius var sá 14. besti í hlaupinu en 24 keppendur komust áfram í undanúrslitin sem fara fram í dag um kl. 11:00.