Eitt ár þar til Ólympíumót fatlaðra verður sett


Nú í dag er eitt ár þar til Ólympíumót fatlaðra verður sett, en mótið fer fram í London 29. ágúst til 9. september 2012. Ein verðlaun eru markmið Íþróttasambands fatlaðra að þessu sinni - raunhæft markmið miðað við þá miklu endurnýjun sem átt hefur séð stað meðal fatlaðra íslenskra íþróttamanna.

Á þessu stærsta íþróttamóti sem fatlaðir íþróttamenn geta tekið þátt í munu um 4.200 keppendur frá 150 löndum berjast um 500 verðlaun sem í boði eru í þeim 20 íþróttagreinum sem keppt verður í.

Íþróttasamband fatlaðra gerir sér vonir um að fjórir til fimm íþróttamenn, í fjórum mismunandi íþróttagreinum þ.e. sundi, frjálsum íþróttum og borðtennis nái tilskyldum lágmörkum fyrir Ólympíumótið árið 2012.  Frestur keppenda til þess að ná tilskyldum lágmörkum fyrir mótið er mismunandi eftir íþróttagreinum.  Þannig hafa borðtennismenn tækifæri til loka árs 2011 til þess að tryggja sér sæti meðal 12 efstu manna á styrkleikalista í sínum flokki, 20. maí er lokafrestur sundfólks og 5. ágúst hjá frjálsíþróttafólki

Fimm Íslendingar voru meðal keppenda á Ólympíumótinu sem haldið var í Peking 2008 þau Eyþór Þrastarson og Sonja Sigurðardóttir í sundi, Baldur Ævar Baldursson og Jón Oddur Halldórsson í frjálsum íþróttum og Þorsteinn Sölvason í lyftingum.  Bestum árangri Íslendinga á mótinu náði Jón Oddur Halldórsson sem hafnaði í 5. sæti í 100 m. hlaupi í flokki T35. Frá árinu 2008 hefur okkar unga og efnilega íþróttafólk tekið stórstígum framförum, eflst og þroskast og nokkur þeirra eru nú þegar kominn í fremstu röð í sínum fötlunarflokkum.  Raunhæft ætti því að vera að hafa það að markmiði að vinna til verðlauna á mótinu þó svo ytri aðstæður og dagsform ráði ávallt úrslitum á stórmóti sem Ólympíumót fatlaðra er.

Vert era ð geta þess að frá 9. september n.k. hefst sala aðgöngumiða á Ólympíumótið 2012.  Reikna má með mikilli aðsókn á hina ýmsu viðburði og fólk því hvatt til þess að tryggja sér miða í  tíma hafi það á annað borð í hyggju að vera meðal áhorfenda.  Hægt er að kaupa miða á viðburði mótsins á http://www.tickets.london2012.com/schedule.html#fullschedule en um 2 milljónir miða verða til sölu á þær 20 íþróttagreinar sem kept verður í Ólympíumótinu 2012.  Verð miðana eru frá 10 pundum á íþróttaviðburði en 20 pundum á opnunar- og lokaathöfnina.

Allar upplýsingar um Ólympíumót fatlaðra má finna á http://www.london2012.com