Sundárið hefst í dag: Hver einasta æfing skiptir máli


Í dag hefst sundárið hjá Sundnefnd Íþróttasambands fatlaðra. Verkefnin eru ærin enda Ólympíumót fatlaðra í London framundan sem og mörg önnur stór og sterk mót. Þar sem sundárið er að hefjast var ekki úr vegi að ræða stuttlega við Inga Þór Einarsson formann sundnefndar ÍF.

,,Í október sendum við mikið af ungum krökkum á Norðurlandamótið í Finnlandi og þau eiga bara eftir að verða betri. Örfá þeirra eiga möguleika á því að komast til London en það kemur allt í ljós í kringum áramótin. Miklu fleiri þeirra eiga góða möguleika á því að komast svo til Ríó árið 2016,“ sagði Ingi Þór og lagði til athyglisverða nálgun.

,,Hver einasta sundæfing skiptir máli, hvert einasta sælgæti sem þú borðar ekki skiptir máli og í hvert skipti sem þú ferð snemma að sofa þá skiptir það máli. Þetta er ekki spurning um að gera eitt atriði 100% betur heldur að gera 100 atriði 1% betur,“ sagði Ingi sem kvaðst spenntur fyrir sundárinu enda væri í mörg horn að líta á næstunni.

Í september er von á Fjarðarmóti í sundi, síðar í mánuðinum halda þau Jón Margeir Sverrisson og Kolbrún Alda Stefánsdóttir á Global Games á Ítalíu. Norðurlandamótið í sundi fer fram í Finnlandi í október, Íslandsmót ÍF í 25m. laug fer fram í nóvember, Nýárssundmót fatlaðra barna og unglinga fer fram fyrstu helgina í janúar og að því loknu eru RIG og Gullmót KR ekki langt undan svo verkefnin eru ærin og ljóst að Sundnefnd ÍF sem og fatlað íslenskt sundfólk mun hafa í nægu að snúast þetta tímabilið.

Sjá nánar verkefni ársins og næsta árs hér á ÍF síðunni undir Verkefnalisti