EM að ljúka í Berlín


Þátttöku Íslands á EM fatlaðra í sundi lauk í gær þegar Eyþór Þrastarson keppti í 200m. fjórsundi. Eyþór hafnaði í 8. sæti í úrslitum á tímanum 2.55,85mín. Með þessum tíma bætti Eyþór sinn persónulega árangur um tvær sekúndur en Íslandsmetið á Birkir Rúnar Gunnarsson sem er 2:39,00mín. og hefur metið staðið síðan 1996. EM lýkur svo í dag en eins og fyrr greinir hafa íslensku sundmennirnir klárað sínar greinar.

Jón Margeir Sverrisson og Eyþór Þrastarson voru fulltrúar Íslands á mótinu en okkur tókst ekki að vinna til verðlauna að þessu sinni. Jón Margeir var hársbreidd frá því í 100m. bringusundi þegar hann hafnaði í 4. sæti með risavaxinni bætingu á Íslandsmetinu og aðeins þremur hundraðshlutum frá bronsinu.

Það eru svo Úkraínumenn sem fara með breiðasta brosið frá Berlín en þeir hafa unnið til flestra verðlauna, alls 105 medalíur í það heila og af þeim 41 gullverðlaun. Úkraínumenn hafa sprungið út á síðustu tveimur árum en þeir voru byrjaðir að láta á sér kræla hér á Íslandi árið 2009 þegar EM í sundi fatlaðra var haldið í fyrsta sinn eftir nokkurra ára hlé.

Mynd/ Sverrir Gíslason: Eyþór Þrastarson bætti sinn persónulega árangur um tvær heilar sekúndur í gær í 200m. fjórsundi.