Jón Margeir dæmdur úr leik


Jón Margeir Sverrisson var í morgun dæmdur úr leik í 100m. baksundi í flokki S14 á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi í Berlín. Heimur íþróttanna getur verið harður í horn að taka og því fékk Jón að kynnast í morgun og nú á hann eina grein eftir, 100m. bringusund sem hann keppir í á föstudag.

Eyþór Þrastarson keppir einnig á föstudag og þá í 100m. skriðsundi og síðasti keppnisdagurinn er næstkomandi laugardag þegar Eyþór keppir í 200m. fjórsundi.

Á mótinu hefur fjöldinn allur af metum þegar verið settur en sigursælasta þjóðin til þessa er Úkraína. Allar upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu þess www.ecswimming2011.com

Mynd/ Sverrir Gíslason: Jón Margeir, lengst til vinstri, gerir sig klára fyrir 200m. skriðsund síðastliðinn mánudag.