Alþjóðaleikunum lokið í Aþenu


Í gærkvöldi fór fram lokahátíð Alþjóðaleika Special Olympics og var venju samkvæmt mikið um dýrðir. Suður-Kórea tók t.d. við fána Special Olympics á hátíðinni þar sem Vetrarleikar SO fara fram í Kóreu í janúar á næsta ári.

Íslenski hópurinn hefur verið hér í Grikklandi síðan 20. júní síðastliðinn og má með sanni segja að allir hafi gert sitt besta á leikunum. Ísland keppti í fótbolta, bocce, fimleikum, frjálsum, sundi, keilu, lyftingum og golfi og voru landi sínu og þjóð til sóma hér í vöggu íþróttanna.

Vissulega gengur ekki allt snuðrulaust fyrir sig þegar stærsta íþróttamót í heiminum fer fram en Grikkir komust engu að síður vel frá verkefninu. Alþjóðapressan hafði svo meiri áhuga á mótmælunum í Grikklandi heldur en nokkurn tíman Alþjóðaleikunum sjálfum og fannst skipuleggjendum það miður sem og fleirum.

Mynd/ Sæþór og Róbert voru kampakátir á lokahátíðinni í gær.