Lyftingakappinn Sveinbjörn Sveinbjörnsson fór á kostum á Alþjóðaleikum Special Olympics þegar jaxlinn rakaði inn fjórum silfurverðlaunum og þremur nýjum Íslandsmetum. Sveinbjörn er í fantaformi um þessar mundir og brosti sínu breiðasta í dag við verðlaunaafhendinguna.
Sveinbjörn setti nýtt Íslandsmet í hnébeygju þegar hann henti upp 140 kg. Næst kom Íslandsmet í réttstöðulyftu þar sem 175 kg. fóru upp og þá lyfti hann 100 kg. í bekkpressu. Samtals voru þetta 415 kg. sem Sveinbjörn lyfti í dag og er samtalan einnig nýtt Íslandsmet í 82,5kg. flokki.
Arnar Már Jónsson lyftingaþjálfari í ferðinni var að vonum ánægður með skjólstæðing sinn en Daníel Unnar Vignisson keppir svo þann 3. júlí en hann er í öðrum þyngdarflokki en Sveinbjörn.
Mynd/ Sveinbjörn Sveinbjörnsson var kampakátur með árangur sinn í dag.