Úrslitakeppnin hafin í golfi hjá Elínu og Sigurði


Sigurður Ármannsson og Elín Fanney Ólafsdóttir hófu áðan leik á þriðja hring í golfi á Alþjóðaleikum Special Olympics í Aþenu. Bæði keppa þau í níu holu keppni á mótinu undir stjórn Heiðrúnar Jóhannsdóttur, eins af sigursælustu kylfusveinum Íslands en Heiðrún er eiginkona Björgvins Sigurbergssonar, margfalds Íslandsmeistara í golfi.

Elín stendur vel að vígi í sínum flokki og eftir 18 holur hefur hún leikið á 136 höggum. Elín tók einnig þátt í sérstöku ,,VIP“ boðsmóti þar sem ófatlaðir kylfingar léku með keppendum í stuttri og skemmtilegri keppni undir fyrirkomulaginu Foursome. Elín lék við hvurn sinn fingur og var leyst út með verðlaunum og gjöfum eftir framlag sitt.

Sigurður hefur á brattann að sækja í sinni keppni en eftir 18 holur hefur hann leikið á 158 höggum en kappinn hefur verið að sækja í sig veðrið, lék fyrst á 81 höggi og svo 77.

Mynd/ Elín á Glyfada golfvellinum ásamt Ólafi föður sínum sem reynst hefur sleipur kylfusveinn.