Andlát: Arnór Pétursson


Enn er höggvið skarð í hóp frumkvöðla íþrótta fatlaðra hér á landi en fallinn er frá Arnór Pétursson á 62 aldursári. Arnór, sem lamaðist í bílslysi rúmlega tvítugur að aldri, lét fötlun sína aldrei hamla sér í neinu sem hann hafði áhuga á og vildi taka sér fyrir hendur.  Hann var einn af þeim sem tóku þátt í undirbúningi að stofnun Íþróttasambands fatlaðra auk þess að vera fyrsti formaður Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík, sem stofnað var 30. maí 1974, þá aðeins 25 ára gamall. 

Arnór einbeitti sér þó ekki einungis að félagslegum þáttum íþróttastarfs fatlaðra heldur var sjálfur mikill íþróttamaður.  Þannig vann hann til verðlauna í lyftingum á ýmsum alþjóðlegum mótum auk þess að vera meðal keppenda á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fór í Arnheim í Hollandi 1980, því fyrsta sem fatlaðir íslenskir íþróttamenn tóku þátt í.

Arnór gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Íþróttasamband fatlaðra og var meðal annars fyrsti formaður Ólympíumótsnefndar ÍF 1984 og sat í nefndinni allt til dauðadags.

Arnórs Péturssonar verður, líkt og annarra frumkvöðla íþróttastarfs fatlaðra, minnst fyrir að vera drengur góður og maður með stórt hjarta sem sló fyrir íþróttir fatlaðra.  Hann var hreinn og beinn í öllum samskiptum, vinur vina sinna, harður í horn að taka og stóð fast á sínu ef svo bar undir.  Drenglyndi hans var mikið og ávallt hægt að treysta á ráðleggingar hans varðandi allt er viðkom íþróttum fatlaðra.

Að leiðarlokum eru þakkir og söknuður efst í huga þegar þessi góði félagi og vinur er fallinn frá.  Blessuð sé minning Arnórs Pétursonar.

Íþróttasamband fatlaðra sendir aðstandendum Arnórs innilegustu samúðarkveðjur.