Þvælingur á Emilíu í dag


Emelía Arnþórsdóttir hóf keppni í Bocce í dag á Alþjóðaleikum Special Olympics í Aþenu. Í bocce eru fjórar trékúlur og ein hvít kúla. Trékúlurnar eru umtalsvert þyngri en þær sem notaðar eru í boccia á Íslandi og hver spilari fær fjórar kúlur. Íþróttin Bocce á Alþjóðaleikum Special Olympics er því nokkuð frábrugðin því sem við þekkjum heima. Leikið er t.d. frá báðum endum vallarins, leiktími hámark 25 mínútur eða upp í 12 stig í útsláttarkeppni. Emelía byrjaði vel í dag og lagði fyrsta andstæðing sinn 8-4 en þá tók að halla undan fæti og uppi varð smá fótur og fit.

Mistök í skráningum úrslita urðu til þess mikil töf varð á keppnisdeginum í Bocce og svo þegar Emelía komst loks í annan leik dagsins tapaði hún naumlega. Ævintýrið hélt áfram þar sem andstæðingur Emelíu í þriðju umferð mætti ekki til leiks en hún á að mæta í fyrramálið og leika þennan þriðja leik og mun vafalítið sýna þar allar sínar bestu hliðar.

Jónas Sigursteinsson er þjálfari Bocce hópsins í Aþenu og þar fer reyndur kappi sem mun vafalaust sjá til þess að andinn í hópnum verði góður enda ekki hætta á öðru þar sem hinn Bocce-spilarinn frá Íslandi er enginn annar en Guðmundur Örn Björnsson sem trúlofaði sig á Opnunarhátíð leikanna á dögunum.

Mynd/ Emelía lék fantavel í fyrsta leiknum í morgun.