Ísland leikur til úrslita gegn Svartfellingum: Fyrirliðinn blóðgaður


Íslensku strákarnir hafa tryggt sér sæti í úrslitaleik 7 manna fótboltans í B-riðli á Alþjóðaleikum Special Olympics sem nú fara fram í Aþenu í Grikklandi. Ísland mætti Austurríkismönnum í dag og hafði betur 4-1. Íslenska liðið hefur því unnið alla leiki sína á mótinu til þessa.

Á morgun mætast Ísland og Svartfjallaland í riðlakeppninni en úrslitin í þeim leik skipta ekki máli upp á framhaldið. Liðin mætast svo aftur á laugardag í hreinum úrslitaleik um gullið í B-riðli. Leikurinn á morgun er kl. 12:00 að staðartíma eða kl. 09:00 að íslenskum tíma.

B-riðill er næststerkasti riðill mótsins en Ísland lék fjóra leiki í flokkun þar sem verið var að meta styrkleika liðsins og þeir unnust allir. 1-0 sigur gegn Hollendingum, 3-1 sigur gegn Þjóðverjum, 3-0 sigur gegn Sviss og loks 1-0 sigur gegn Lúxemborg.

Eftir að knattspyrnuliðið hafði lokið leik sínum þriðjudaginn 28. júní var fyrirhugað að strákarnir tækju lífinu með ró inni á hótelherbergi fram að kvöldmat. Það fór hins vegar ekki betur en svo að fyrirlið liðsins, Sæþór Jensson, endaði inni í sjúkraherbergi með skurð á höfði.

Þannig var að Sæþór, fyrirliði íslenska liðsins, og herbergisfélagi hans Jakob Alexander voru að horfa á stráka spila fótbolta í garðinum fyrir utan hótelherbergið þegar allt í einu kemur bolti svífandi í áttina að þeim. Boltinn endaði í rúðunni sem mölbrotnaði og fékk Sæþór glerbrot í höfuðið. Strákarnir fengu í kjölfarið að skipta um herbergi enda glerbrot í hverjum krók og kima, upp í rúmi o.s.frv.

Búið var um sár Sæþórs og náði hann að spila leikinn í dag með veglegar umbúðir á höfði.

Myndir/ Á efri myndinni sést hvernig búið var um höfuð fyrirliðans í leiknum gegn Austurríki í dag og á þeirri neðri fagna piltarnir með áhorfendum sínum eftir öruggan 3-0 sigur gegn Sviss á dögunum.