Tímamót á Íslandsmóti ÍF í frjálsum


Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra fór fram á Laugardalsvelli laugardaginn 11. júní síðastliðinn. Mótið markaði tímamót í íþróttasögu fatlaðra hérlendis þar sem í fyrsta sinn tóku þátt íslenskir keppendur í flokkum 40-44 sem eru flokkar hreyfihamlaðra er notast við stoðtæki eins og gervifætur.

Davíð Jónsson ruddi brautina í flokki fullorðinna þegar hann varð fyrstur til þess að keppa í flokki 44. Davíð keppti í kúluvarpi og 100m. hlaupi og setti, eins og gefur að skilja, Íslandsmet í báðum greinum. Í 100m. hlaupi kom hann í mark á 22,04 sek. og í kúluvarpinu kastaði hann lengst 8,22m. Sjá svipmyndir frá mótinu og viðtal við Davíð á RÚV.

Þá vöktu ungir iðkendur verðskuldaða athygli á mótinu en vaskur hópur krakka úr Æskubúðum ÍF og Össurar var skráð á mótið sem og krakkar af barnanámskeiði blindra og sjónskertra á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Allur þessi hópur keppti í svokallaðri þríþraut, 60m. hlaupi, langstökki og boltakasti og fengu allir þátttökuviðurkenningu fyrir sín afrek á mótinu. Spennandi hópur frjálsíþróttakrakka hér á ferðinni sem vert verður að fylgjast með í náinni framtíð.

Einnig féllu nokkur Íslandsmet og þar lét Norðanmaðurinn Kristófer Sigmarsson frá Eik ekki sitt eftir liggja en kappinn setti nýtt og glæsilegt met í langstökki þroskahamlaðra. Kristófer stökk 5,51m. í flokki ungkarla (þroskahamlaðir) og var stökkið hans met einnig í flokki fullorðinna.

Veglegt myndasafn frá mótinu

Úrslit mótsins

Nánar verður greint frá mótinu í máli og myndum í Hvata, tímariti ÍF, sem kemur út síðar í þessum mánuði.

Mynd/ Tomasz Kolodziejski: Davíð Jónsson er hér í kúluvarpi í flokki 44.