Snilldartaktar á Íslandsleikum SO í knattspyrnu


Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu fóru fram á gervigrasi Víkings á dögunum þar sem snilldartaktar litu dagsins ljós. Fjöldi marka var skoraður og liðin sýndu góða knattspyrnu á löngum köflum og ljóst að knattspyrna fatlaðra er í mikilli sókn hérnlendis.

Keppt var í tveimur styrkleikaflokkum, getumeiri og getuminni. Lið Aspar bar sigur úr býtum í báðum flokkum og þá var sérstakt SO lið á mótinu en það knattspyrnulið keppti í flokki getumeiri og hafnaði í 2. sæti en liðið samanstendur af keppendum sem munu taka þátt í Sumarleikum Special Olympics í Aþenu síðar í þessum mánuði.

Knattspyrnudeild Víkings stóð að framkvæmdinni ásamt ÍF og er Víkingum þakkaður stuðningurinn en mótið tókst með eindæmum vel og vitaskuld voru grillaðar pylsur sem skolað var niður með Svala að móti loknu.

Úrslit mótsins:

Getumeiri:
1. Ösp
2. SO Ísland
3. Nes

Getuminni:
1. Ösp
2. Nes

Hér má nálgast myndasafn frá mótinu