Silfur og brons hjá Baldri í Hollandi


Baldur Ævar Baldursson tók þátt á opna hollenska mótinu í frjálsum íþróttum um síðastliðna helgi og var markmiðið að ná lágmarki í langstökki fyrir Ólympíumót fatlaðra í London á næsta ári. Lágmarkið er 5.10m í langstökkinu í flokki T37, flokki Baldurs, en ekki gekk það að þessu sinni þar sem Baldur stökk lengst 4.77m. á mótinu ytra og hafnaði í 5. sæti.

Nokkur vonbrigði að hann skyldi ekki stökkva lengra í Hollandi en Baldur mun reyna við lágmarkið á nýjan leik á MÍ á Selfossi síðla júlímánaðar.

Baldur vann til silfurverðlauna í spjótkasti í Hollandi þegar hann kastaði 28,25m. og þá landaði Baldur bronsverðlaunum í kúluvarpi er hann kastaði kúlunni 10,95m. og er þetta með hans bestu köstum síðastliðin tvö ár en Íslandsmet Baldurs í flokki 37 er 11,16m.

Mynd/ Baldur Ævar á Ólympíumóti fatlaðra í Peking 2008.