Minning: Júlíus Arnarsson


Júlíus Arnarsson formaður
Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík

Stórt skarð er enn á ný höggvið innan Íþróttafélags  fatlaðra í Reykjavík og íþróttahreyfingu fatlaðra. Formaður Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík Júlíus Arnarsson lést laugardaginn 21. maí síðastliðinn. Hann hafði allt frá fyrsta starfsári ÍFR og fram til síðasta dags verið þjálfari hjá félaginu jafnframt því að gegna ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir ÍFR og íþróttahreyfingu fatlaðra.  Sem stjórnarmaður ÍFR og formaður frá árinu 1997 vann hann ötullega að því að efla fjölbreytta starfsemi félagsins og hann átti einnig stóran þátt í að byggja upp öflugt getraunastarf ÍFR.

Sem þjálfari í mörgum greinum innan ÍFR lagði hann grunn að afrekum félagsmanna ÍFR sem náð hafa árangri á alþjóðavettvangi en ekki síst var það hans áhugamál að þjálfa ung fötluð börn. Síðustu árin hefur hann verið í forsvari fyrir æfingar hjá ungum börnum sem eru að hefja íþróttaiðkun í íþrótta- og sundskóla ÍFR. Hans lífsstarf sem þjálfari og kennari var sérlega farsælt og þetta starf átti hug hans allan. Júlíus var einstakt ljúfmenni og góður vinur sem verður sárt saknað.

Íþróttasamband fatlaðra kveður góðan vin og félaga með þökk fyrir einstakt lífsstarf í þágu fatlaðs íþróttafólks og sendir innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans.