Um tuttugu ungmenni skemmtu sér við Æskubúðir ÍF og Össurar


Tæplega tuttugu ungmenni mættu við Æskubúðir ÍF og Össurar í dag en verkefnið fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Foreldrar og systkini fjölmenntu einnig við búðirnar þar sem Kári Jónsson landsliðsþjálfari Íþróttasambands fatlaðra leiddi hópinn í gegnum helstu greinar frjálsíþróttanna.

Æskubúðirnar eru samstarfsverkefni Íþróttasambands fatlaðra og Össurar þar sem ungmennum sem notast við stoð- eða stuðningstæki var boðið upp á veglega íþróttakynningu. Fyrirhugað er að í kringum páska verði nokkrar frjálsíþróttaæfingar undir stjórn Kára sem er íþróttafulltrúi Garðabæjar og lektor í íþróttafræðum frá Íþróttabraut Háskóla Íslands á Laugarvatni.

Verkefninu sjálfu er ekki ætlað að starfa eins og íþróttafélagi heldur miklu frekar að skapa hóp fatlaðra ungmenna sem geta hist reglulega við æfingar og fræðslu, borið saman bækur sínar og kynnst fjölbreyttum íþróttagreinum innan aðildarfélaga fatlaðra sem og ófatlaðra.

Á búðunum fékk hópurinn að spreyta sig í spretthlaupi, kúluvarpi, skutlukasti sem er innanhúsútgáfa af spjótkasti og langstökki. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi og var gerður góður rómur að verkefninu.

Tilurð verkefnisins er sú að í almennu mótahaldi fatlaðra hafa hreyfihömluð ungmenni verið afar fámennur hópur en þrátt fyrir skamman fyrirvara voru hátt í tuttugu einstaklingar sem mættu með foreldrum sínum og syskinum og áttu saman góða stund í Laugardalnum. Góðir gestir komu einnig í heimsókn en það voru þeir Geir Sverrisson og Ólafur Eiríksson en báðir eru þeir fyrrum afreksmenn úr röðum fatlaðra sem sköruðu fram úr á heimsmælikvarða og unnu til fjölda verðlauna á sterkustu mótum heims. Geir í frjálsum íþróttum og sundi og Ólafur í sundi.

Myndir/ Á efri myndinni fær hópurinn leiðsögn í skutlukasti og á þeirri neðri sést einn ungur og efnilegur máta sig á verðlaunapallinum.