Íslandsbanki aðal styrktaraðili Special Olympics á Íslandi


Í vikunni undirrituðu Íslandsbanki og Íþróttasamband fatlaðra samstarfssamning þess efnis að Íslandsbanki verði einn af aðal styrktaraðilum samtakanna vegna Special Olympics á Íslandi. Undirritunin fór fram í útibúi Íslandsbanka við Gullinbrú, sem er aðal viðskiptaútibú Special Olympics á Íslandi.  Íslandsbanki og forverar hans hafa stutt ÍF og Special Olympics allt frá árinu 2000. 

Special Olympics samtökin voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni í Bandaríkjunum árið 1968. Markmið þeirra er að bjóða upp á íþróttatilboð fyrir fólk með þroskahömlun og aðra þá sem eiga við námserfiðleika að stríða. Íþróttasamband fatlaðra gerðist aðili að Special Olympics samtökunum árið 1989 og hefur síðan þá verið umsjónaraðili samtakanna á Íslandi.

Farsælt samstarf Íslandsbanka og ÍF
Samstarf Íslandsbanka og Íþróttasambands fatlaðra vegna starfsemi i Special Olympics á Ísland i hófst árið 2000 þegar Íslandsbanki gerðist aðalsamstarfsaðili samtakanna hér á landi.  Allar götur síðan þá hafa ÍF og Íslandsbanki átt með sér farsælt og gefandi samstarf vegna íþróttatilboða  fyrir fólk með þroskahömlun. Þannig hefur stuðningur bankans gert sambandinu kleift að senda stóran hóp íþróttafólks til sumar- og vetrarleika Special Olympics, en Íslendingar hafa tekið þátt í alþjóðasumar- og vetrarleikum Special Olympics frá árinu 1991. Þannig sendi Ísland þátttakendur til keppni í listhlaupi á skautum á vetrarleika Special Olympics í Nagano í Japan 2005 og  Boise í Idaho 2009 auk þess sem Ísland hefur sent keppendur á Evrópuleika Special Olympics en þeir voru síðast haldnir í Póllandi árið 2010. Á síðustu alþjóðasumarleikana sem haldnir voru í Shanghai í Kína árið 2007 sendi Ísland, með myndarlegum stuðningi Íslandsbanka, 32  keppendur sem allir stóðu sig með miklum ágætum undir kjörorði leikanna “I know I can“ eða „ég veit að ég get”.

Næstu alþjóðaleikar Special Olympics verða í Grikklandi árið 2011. Íþróttasamband fatlaðra sendir 38 þátttakendur á alþjóðasumarleika Special Olympics sem haldnir verða í Aþenu í Grikklandi í 25. Júní – 4. Júlí 2011.  Íslendingar keppa í 8 íþróttagreinum; boccia, fimleikum, frjálsum íþróttum,  golfi, keilu, knattspyrnu, lyftingum og sundi en kjörorð leikana í ár er “I´m in“ eða „ég er með”.

Á leikum Special Olympics keppir fólk með þroskahömlun. Þátttakan er aðalatriðið, allir keppa aðeins við sína jafningja og allir eiga sömu möguleika á verðlaunum. Hugmyndafræði Special Olympics byggir á gildi umburðarlyndis og jafnræðis. Lögð er megináhersla á þátttöku, ánægju, einstaklingsmiðaða færni og vináttu. 

Mynd/ Ólafur Ólafsson útibússtjóri Íslandsbanka við Gullinbrú t.v. og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF t.h. handsala samninginn. Með þeim á myndinni eru þeir Helgi Magnússon og Jóhann Fannar Kristjánsson en þeir verða á meðal þátttakenda á Sumarleikum Special Olympics í Grikklandi.