Frjálsíþróttamaðurinn Einar Trausti Sveinsson er fallinn frá aðeins 29 ára að aldri. Einar Trausti skipaði hóp vaskra ungra frjálsíþróttamanna sem gerðu garðinn frægan í kringum aldamótin síðustu. Sín fyrstu spor í þátttöku á alþjóðavettvangi steig Einar Trausti, líkt og allir fremstu íþróttamenn úr röðum fatlaðra, á Norrænum barna og unglingamótum. Árið 1998, þá aðeins 16 ára gamall vann hann til bronsverðlauna á Heimsmeistaramóti fatlaðra sem fram fór í Englandi og ári síðar til silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti spastískra sem einnig fór fram í Englandi.
Árið 2000 var Einar Trausti meðal sex keppenda frá Íslandi sem náðu tilskyldum lágmörkum fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fram fór í Syndney. Meiðsli höfðu þá um skeið háð honum sem komu í veg fyrir að hann væri í baráttu um verðlaunasæti.
Einar Trausti hætti keppni á alþjóðavettvangi eftir Ólympíumótið og tók síðast þátt í mótum á vegum ÍF árið 2003. Einar Trausti, sem keppti í fötlunarflokki F35, setti Íslandsmet í spjótkasti, kringlukasti og kúluvarpi sem enn standa.
Margs er að minnast frá því miður allt of stuttum íþróttaferli Einars Trausta þar sem ávallt var stutt í brosið þó á móti blési. Þannig var hann hvers manns hugljúfi, glaðlyndur og góður drengur.
Íþróttasamband fatlaðra færir aðstandendum Einars Trausta sínar innilegustu samúðarkveðjur.