Skíðanámskeið í Hlíðarfjalli: Gleði og ánægja á Akureyri


Helgina 18. – 20. febrúar var haldið skíðanámskeið fyrir fötluð börn og ungmenni í Hlíðarfjalli. Námskeiðið var samstarfsverkefni Íþróttasambands fatlaðra, Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, Hlíðarfjalls og NSCD, (National Sport Center for disabled) Winter Park Colorado.  

Þátttakendur  voru einhverf börn, börn með sjónskerðingu og hreyfihömluð börn. Markmið námskeiðsins var að kynna skíðaíþróttina fyrir fötluðum börnum og aðstandendum þeirra en þetta námskeið var fyrir þá  sem geta notað hefðbundinn skíðaútbúnað. Mjög góður árangur náðist hjá þátttakendum og mikil gleði og ánægja ríkti meðal þeirra og ekki síst aðstandenda.
Aðalleiðbeinandi var  Beth Fox forsvarsmaður NSCD,  Winter Park, Colorado en hún býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði. NCSD Winter Park er í markvissu samstarf við barnaspítala í Denver  og börn af spítalanum eru þátttakendur í útivistarstarfi NSCD. Kennarar og aðstoðarfólk lögðu fram sína vinnu í sjálfboðavinnu og námskeiðin hafa frá upphafi verð byggð upp af sjálfboðaliðum.

Í hópi þátttakenda var lítill drengur sem í fyrsta skipti á ævinni gat staðið einn og óstuddur en hann notar göngugrind. Hann hafði sérstaka skíðagrind en í lok námskeiðs skíðaði hann með aðstoð þjálfara án þess að nota skíðagrindina. Þessi upplifun hafði mikil áhrif á hann og aðra sem fylgdust með.    

Skíðaiðkun fatlaðra barna hefur verið  mjög takmörkuð en þessi íþróttagrein hentar þeim ekki síður en öðrum börnum.  Aðalatriðið er að aðlaga búnað og aðstæður að hverju barni og markmið er að gera þeim kleift að taka þátt í almennum tilboðum.  Í Hlíðarfjalli þessa helgi var drengur sem hefur nú hafið æfingar með skíðadeild Víkings en hann skíðar á einu skíði.  Hann mætti á námskeið ÍF, VMÍ og NSCD árið 2010 þar sem hann fékk sérhannaða skíðastafi og hefur nú pantað eigin stafi.  Hann hefur sýnt ótrúlegar framfarir og hefur lagt mikið á sig til að geta æft með sínum jafnöldrum.

Þróun er að eiga sér stað á þessu sviði þó hægt gangi en aðalatriði er að fólk nýti þau tækfæri sem til staðar eru og prófi sig áfram. Í Hlíðarfjalli er til staðar sérbúnaður og kostur er á því að fá sérþjónustu ákveðna daga í viku.

Helgina 4. – 6. mars verður námskeið fyrir þá sem þurfa að nota Bi ski eða Monoski og  það námskeið er fullbókað. Þar verða íslenskir leiðbeinendur og aðstoðarfólk.