Sundkonan Kolbrún Alda Stefánsdóttir frá Firði í Hafnarfirði er handhafi Sjómannabikarsins 2011 en Kolbrún vann besta afrekið á Nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðra sem var að ljúka í Laugardal. Mótið var nú haldið í tuttugasta og áttunda sinn og er fyrir fötluð ungmenni 17 ára og yngri. Kolbrún er fjórði sundmaðurinn frá Firði síðan árið 2000 til þess að vinna Sjómannabikarinn.
Sérstakur heiðursgestur á mótinu var herra Guðbjartur Hannesson ráðherra velferðarmála en hann og frú Dorrit Moussaieff forsetafrú Íslands sáu um verðlaunaafhendingu á mótinu. Þá heiðraði herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, einnig mótsgesti með nærveru sinni.
Sjómannabikarinn er afhentur þeim sundmanni ár hvert sem vinnur besta afrekið á mótinu. Reiknuð eru út stig viðkomandi af þeim tíma sem synt er á, heimsmet gildir þá 1000 stig. Í dag fékk Kolbrún 594 stig fyrir 50m. skriðsund er hún kom í bakkann á tímanum 34,44 sek.
Við setningu á mótinu í dag bað Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF viðstadda um að veita einnar mínútu þögn til minningar um Erling Þ. Jóhannsson sem andaðist á dögunum eftir langvarandi veikindi. Sveinn Áki ásamt Hrafnhildi Hámundardóttur, eiginkonu Erlings heitins, afhjúpuðu svo minningarskjöld sem standa mun í Laugardalslaug um ókomin ár. Erlingur var brautryðjandi í sundíþróttinni á Íslandi og þjálfaði helstu afreksmenn þjóðarinnar úr röðum fatlaðra. Erlingur var þjálfari hjá ÍFR og landsliðsþjálfari hjá ÍF um árabil.
Sigurvegarar á Nýárssundmóti ÍF síðan 2000 / handhafar Sjómannabikarsins
2011: Kolbrún Alda Stefánsdóttir - Fjörður
2010: Vilhelm Hafþórsson - Óðinn
2009: Jón Margeir Sverrisson - Ösp
2008: Karen Gísladóttir - Fjörður
2007: Karen Gísladóttir - Fjörður
2006: Hulda H. Agnarsdóttir - Fjörður
2005: Guðrún Lilja Sigurðardóttir - ÍFR
2004: Guðrún Lilja Sigurðardóttir – SH/ÍFR
2003: Guðrún Lilja Sigurðardóttir - SH
2002: Jóna Dagbjört Pétursdóttir – ÍFR
2001: Gunnar Örn Ólafsson – Ösp
2000: Gunnar Örn Ólafsson – Ösp
Heildarúrslit mótsins má finna hér.
Mynd: Kolbrún Alda Stefánsdóttir með Sjómannabikarinn