Erna Friðriksdóttir og Jón Margeir Sverrisson voru í dag útnefnd Íþróttakona og Íþróttamaður Íþróttasambands fatlaðra árið 2010 við hátíðlega athöfn á Radisson SAS Hóteli Sögu. Jón Margeir er 18 ára sundmaður úr Ösp/Fjölni en Erna er 23 ára gömul skíðakona frá skíðafélaginu í Stafdal.
Jón Margeir hefur farið mikinn á árinu 2010 og sett alls 19 Íslandsmet í 11 greinum, 16 met í 25m. laug og 3 met í 50m. laug. Erna gat því miður ekki verið viðstödd viðburðinn þar sem hún er nú við æfingar í Winter Park í Colorado í Bandaríkjunum. Hún varð fyrr á þessu ári fyrsta íslenska konan til þess að öðlast þátttökurétt á Vetrarólympíumóti fatlaðra. Það var faðir hennar Friðrik Guðmundsson sem tók við verðlaununum í dag fyrir hönd Ernu.
Jón Margeir syndir fyrir Ösp/Fjölni, Ösp á mótum fatlaðra en Fjölni á mótum ófatlaðra. Þjálfari Jóns hjá Fjölni er Vadim Forafonov en þjálfari Ernu er Scott Olson.
Sjá nánar árangur Ernu.
Sjá nánar árangur Jóns Margeirs.
Íþróttasamband fatlaðra óskar Jóni og Ernu innilega til hamingju með útnefninguna.
Ljósmynd/ Jón Margeir Íþróttamaður ársins úr röðum fatlaðra t.h. en t.v. á myndinni er Friðrik Guðmundsson faðir Ernu. Á neðri myndinni er svo Erna Friðriksdóttir.