Fyrstu Evrópuleikar Special Olympics í listhlaupi á skautum voru haldnir í í Pétursborg í Rússlandi dagana 30. nóvember til 3. desember. Skautafélagið Björninn sendi 2 keppendur ásamt þjálfurum á leikana. Það voru Katrín Guðrún Tryggvadóttir og Þórdís Erlingsdóttir sem kepptu á leikunum en þjálfarar voru Helga Olsen og Berglind Rós Einarsdóttir sem jafnframt sótti dómaranámskeið í tengslum við leikana.
Á þessum fyrstu Evrópuleikum í greininni voru 7 þátttökulönd, Rússland, Þýskaland, Finnland, Austurrík og Ísland. Keppendur voru 40 en keppt var í mismunandi styrkleikaflokki. Íslensku keppendurnir kepptu í byrjendaflokki en keppt var í skylduæfingum og frjálsum æfingum og úrslit voru í samræmi við samanlagðan árangur.
Eftir skylduæfingar var Katrín Guðún í öðru sæti og Þórdís í fjórða sæti en eftir frjálsu æfingarnar skilaði frammistaða þeirra því að Katrín Guðrún varð í fyrsta sæti og Þórdís í öðru sæti. Allir fá verðlaun á leikum Special Olympics og keppnisform er gjörólíkt því sem gerist á hefðbundnum íþróttamótum en frammistaðan var glæsileg.
Það er mjög ánægjulegt að íslenskir keppendur séu í þessum brautryðjendahópi en greinin er mjög mjög krefjandi og reynir mjög á samhæfingu og einbeitingu keppenda. Skautafélagið Björninn á heiður skilinn fyrir að vinna með ÍF að því að efla þátttöku fatlaðra í fleiri íþróttagreinum en skautaíþróttin hefur lengi verið mjög vinsæl meðal barna og unglinga á Íslandi. Fötluð börn og ungmenni og einstaklingar með sérþarfir hafa ekki verið virk nema í fáum íþróttagreinum þó möguleikar til þátttöku í flestum greinum ættu að vera til staðar, séu þjálfarar tilbúnir að aðlaga æfingar í samræmi við þarfir hvers og eins.
Skautafélagið Björninn hefur staðið fyrir æfingum fyrir einstaklinga með sérþarfir frá árinu 2005. Íþróttasamband Fatlaðra sendi 2 keppendur til þátttöku í listhlaupi á skautum á alþjóðaleika Special Olympics í Japan 2005 og leitaði þá aðstoðar Helgu Olsen skautaþjálfari sem tók að sér að undirbúa keppendur. Þessi grein var á þeim tíma ekki talin henta þessum hópi og margir höfðu ekki trú á að þetta verkefni gengi upp. Helga Olsen sýndi einstakan áhuga á að fylgja málum eftir og náði frábærum árangri í þjálfun einstaklinganna vegna leikanna. Frá þeim tíma hefur hún unnið markvisst að því að efla þátttöku einstaklinga með sérþarfir í skautaíþróttinni og hefur þjálfað einstaklinga með sérþarfir hjá Skautafélaginu Birninum. Íþróttasamband Fatlaðra sem er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi hefur hvatt aðildarfélög sín og almenn íþróttafélög að taka þátt í verkefnum sem Special Olympics samtökin standa fyrir í einstaka greinum. Þegar kynnt var tækifæri til þátttöku í Evrópuleikunum í Rússlandi sýndi Skautafélagið Björninn strax áhuga á málinu og hefur alfarið séð um skipulag og undirbúning þessa verkefnis í samstarfi við ÍF.
Íslenski hópurinn lenti í ýmsum ævintýrum, taska með skautabúningi og skautum varð eftir í Stokkhólmi fyrsta keppnisdaginn en leyst var úr þeim málum. Verkfall Finnair breytti brottfararáætlun og tungumálaörðugleikar gerðu verkefnin skrautlegri en ferðin var ævintýri sem án efa lifir lengi í minningunni.