Vel heppnaðar og vel sóttar æfingabúðir í sundi og frjálsum


Um síðastliðna helgi voru haldnar æfingabúðir í frjálsum íþróttum fatlaðra í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Samhliða þeim var  haldið þjálfaranámskeið. Helgina þar á undan fóru fram æfingabúðir hjá sundlandsliði ÍF.

Hópur vaskra íþróttamanna og þjálfara mætti og má með sanni segja að vel hafi tekist til við báðar æfingabúðirnar. Í frjálsum var þetta fyrsti hluti af þremur,  en eftir áramót verður  annar hluti  og þriðji hluti í vor. Íþróttamennirnir æfðu tvisvar  yfir daginn og fengu síðan stutta fyrirlestra um flokkanir og gildi upphitunar. Þjálfarar fengu hugmyndir um  tækniæfingar  fyrir langstökk og stört í spretthlaupum, þeir fengu einnig fyrirlestra um áætlun afreksfólks, greiningar/flokkanir, muninn á  Íslandsleikum Special Olympics  og Íslandsmótum  ÍF.

Á sundbúðunum var æft vel og mikið og sátu iðkendur svo fyrirlestur frá Ólafi Magnússyni framkvæmdastjóra fjármála- og afrekssviðs ÍF, Inga Þór Einarssyni formanni Sundnefndar ÍF og Kristínu Guðmundsdóttur landsliðsþjálfara ÍF í sundi. Líkt og í frjálsum verða einnig fleiri æfingabúðir sundlandsliðsins á komandi mánuðum.

Margir hverjir eru nú komnir á fullt í undirbúningi sínum fyrir stærri verkefni og það stærsta framundan á afrekssviði er Ólympíumót fatlaðra í London árið 2012.

Ljósmynd/ Frjálsíþróttahópurinn tók vel á því í Laugardal um síðustu helgi.