Jóhann úr leik á HM: Riðillinn einfaldlega of sterkur!


Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson er úr leik á Heimsmeistaramótinu í borðtennis í flokki C2. Fyrr í vikunni tók Jóhann þátt í opnum flokki þar sem hann datt út í fyrstu umferð gegn þýskum spilara.

Jóhann var afar óheppinn með riðil að þessu sinni þar sem hann hafnaði með fyrrum Ólympíumeistara frá Kóreu og núverandi Ólympíumeistara frá Frakklandi.

Í fyrstu umferð lék Jóhann gegn Frakkanum Vincent Boury og tapaði 3-0. Frakkinn lék svo gegn Kóreumanninum Kyung Mook Kim og lá sá franski 3-0 svo á brattann var að sækja fyrir Jóhann gegn Kóreumanninum. Svo fór að Kyung Mook Kim hafði betur 3-0 og Jóhann úr leik en hinir tveir komnir áfram.

Jóhann hefur því lokið þátttöku sinni á HM að þessu sinni og er væntanlegur heim til landsins í byrjun nóvembermánaðar.