Brjáluð keyrsla í Slóveníu


Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson er nú staddur í viðamiklum æfingabúðum í Slóveníu ásamt félaga sínum og dyggum aðstoðarmanni Sigurði Kristni Sigurðssyni. Heimasíða ÍF náði stuttu tali af Jóhanni í gær á milli æfinga.

,,Þetta eru tveir og hálfur tími tvisvar sinnum á dag sem við æfum, það er frí á morgun (í dag) en annars hefur þetta verið brjáluð keyrsla,“ sagði Jóhann sem hélt út þann 12. september síðastliðinn og er væntanlegur aftur heim þriðjudaginn 21. september.

,,Hér hef ég séð ýmislegt sem betur má fara hjá mér og ég get lagað strax og annað sem mun kannski taka lengri tíma,“ sagði Jóhann en ferðin til Slóveníu er einn stærsti lokahnykkurinn í undirbúningi hans fyrir HM í borðtennis sem fram fer í Suður-Kóreu dagana 25. október til 3. nóvember.