Einn helsti styrktar- og samstarfsaðili Íþróttasambands fatlaðra er stoðtækjafyrirtækið Össur. Á dögunum fór Reykjavíkurmaraþonið fram þar sem fjöldi starfsmanna Össurar hljóp til styrktar ÍF. Alls söfnuðu starfsmennirnir 399.500 kr. fyrir ÍF og var það framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF, Ólafur Magnússon, sem tók við styrknum úr hendi Sigurborgar Arnarsdóttur tengiliðs fjárfesta Össurar.
Rétt eins og ÍF hefur Össur hafið undirbúning sinn fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fram fer í London 2012. Á Ólympíumótinu í Peking 2008 var hópur íþróttamanna sem keppti undir fánum sinna þjóða og Össurar og kallaðist sá úrvalshópur íþróttamanna Team Össur. Hópurinn vann til fjölda verðlauna í Peking og meðal íþróttamanna í hópnum er hlaupagarpurinn og Íslandsvinurinn Oscar Pistorius sem vann til gullverðlauna í öllum sínum hlaupagreinum í Peking. Magnaður árangur hjá liði Össurar sem mun vísast láta vel fyrir sér finna í London þegar þar að kemur.
Ólafur Magnússon sagði við afhendingu styrksins að framtak af þessu tagi gerði Íslandi kleift að berjast á meðal þeirra bestu. „Markmiðið er ávallt sett hátt hjá Íþróttasambandi fatlaðra og því fylgir töluverður kostnaður að standa jafnfætis þeim bestu. Össur hefur sýnt óbilandi skilning á þessu umhverfi og verið ÍF afar mikilvægur styrktar- og samstarfsaðili og kunnum við fyrirtækinu okkar bestu þakkir fyrir.“
Ljósmynd/ Ólafur tekur við styrknum frá Össuri úr hendi Sigurborgar