Starfsmenn Össurar hlupu til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra


Góð stemming myndaðist í Reykjavíkurmaraþoninu hjá starfsmönnum Össurar þegar þeir lögðu af stað í hlaupið. Um 70 starfsmenn skráðu sig til þátttöku þetta árið. Alls 14 starfsmenn tóku þátt í hálfmaraþoni, 39 í 10 km, 16 í skemmtiskokki og fjöldamargir hlupu með börnum sínum í Latarbæjarhlaupinu. Í heildina hlupu starfsmennirnir 799 kílómetra. Af hverjum kílómeter sem hlaupinn var runnu 500 krónur til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra og söfnuðust alls 399.500 krónur.

Einnig tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu fimm afreksmenn í íþróttum sem allir nota vörur frá Össuri og stoðtækjafræðingarnir þeirra. Þar á meðal var Richard Whitehead sem hlaupið hefur undir 3 tímum í heilu maraþoni. Það var frábær hvatning fyrir starfsfólk Össurar að heyra sögur þeirra og hlaupa með þeim í Reykjavíkurmaraþoninu.

Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til starfsmanna Össurar en fyrirtækið er einn af aðalstyrktaraðilum sambandsins.

Ljósmynd/ Hópur Össurar skemmti sér vel í Reykjavíkurmaraþoninu.