Eyþór í fimmta sæti


Síðdegis í gær keppti Eyþór Þrastarson í úrslitum í 400 m skriðsundi í flokki blindra (S11).  Hafnaði Eyþór í 5. sæti, synti á tímanum 5:08.02 mín. Fjórir fyrstu í þessu úrslitasundi syntu undir fimm mínútum þar sem hinn spænski Enhamed Mohamed sigraði á tímanum 4:44.08 mín.

Í dag er síðasti keppnisdagur mótsins og þá synda þau Eyþór Þrastarson í 100 m baksundi flokki S11 (flokki blindra), Sonja Sigurðardóttir og Hjörtur Már Ingvarsson í 100 m skriðsundi flokki S5 (flokki hreyfihamlaðra) og Jón Margeir Sverrison, Ragnar Ingi Magnússon, Aníta Ósk Hrafnsdóttir og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 200 m skriðsundi í flokki S14 (flokki þroskaheftra).

Mótinu lýkur svo á morgun, laugardag, með keppni í 5 km sjósundi, grein sem nýlega er farið að bjóða upp á í tengslum við stærstu sundmótin sem IPC (Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra) stendur fyrir.

Ljósmynd/ Eyþór Þrastarson varð fimmti í 400m. skriðsundi á HM í gær. Á EM í október 2009 sem fram fór hér á Íslandi tók hann silfurverðlaun í þessari grein.