HM fatlaðra í sundi sett í Hollandi


Setningarhátíð Heimsmeistaramóts fatlaðra í sundi fór fram í kvöld í hinni glæsilegu Pieter van den Hoogenband laug í Eindhoven þar sem mótið fer fram 15. -  21. ágúst.

Setningarathöfnin, sem stóð yfir í um klukkustund, var hin glæsilegasta þar sem keppendur gengu inn undir fána síns lands en fánaberi Íslands var Pálmi Guðlaugsson. Í kjölfarið nutu áhorfendur allir hinna ýmsu skemmtiatriða sem boðið var upp á.  

Sundkeppnin sjálf hefst síðan strax á sunnudagsmorgni en þá keppa þeir Eyþór Þrastarson í 200 m fjórsundi í flokki blindra (S11) og Hjörtur Már Ingvarsson í 50 m skriðsundi í flokki hreyfihamlaðra (S5).

Heimsmeistaramótið, sem nú er haldið í fimmta sinn, er hið stærsta sem farið hefur fram og með fleiri keppendum en á Ólympíumótinu í Peking þannig að búast má við harðri keppni og vonandi fjölda meta.

Mögulegt er að fylgjast með mótinu á heimasíðu þess www.wcswimming2010.com á www.facebook.com/IPCSwimming og opinberri vefsjónvarpsstöð IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra) www.paralympicport.tv