Alþjóðlegi Ólympíudagurinn í dag


Alþjóðlegi Ólympíudagurinn er haldinn hátíðlegur um allan heim í dag, 23. júní. Þennan dag árið 1894 var Alþjóðaólympíunefndin stofnuð.

Þetta er því sérstakur dagur í sögu íþrótta og er markmiðið að bjóða fólki að koma saman, hreyfa sig, læra nýjar íþróttagreinar og kynnast ólympískum hugsjónum og gildum. Ólympísku gildin eru; að ávallt gera sitt besta, sýna vináttu og virðingu.

Í tilefni dagsins standa ÍSÍ og Ólympíufjölskylda ÍSÍ (Sjóvá, Íslandsbanki, Valitor Visa og Icelandair) að dagskrá sem hefst kl:13.00 í Egilshöll og lýkur við Laugardalslaugina kl:22:00 með Miðnæturhlaupinu.

Dagskráin er fjölbreytt; íþróttaþrautir Fjölnis í Egilshöll, stefnt að því að bæta íslandsmetið (500 manns) í að mynda ólympíuhringina, Ólympíufarar verða á staðnum. Síðan verður hægt að hitta upp fyrir Miðnæturhlaupið í Laugardalnum frá kl:20:00 með því að prófa, hafnarbolta, hjólaskíði, skylmingar og sundknattleik (sýningarleikur). Ólympíudagurinn er ætlaður öllum, óháð íþróttalegri getu. Meginþemu í tengslum við daginn eru þrjú – hreyfing, lærdómur og uppgötvun.

Frekari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu ÍSÍ www.isi.is