Suðrasystur komu færandi hendi á Íslandsmótinu


Íslandsmót ÍF í frjálsum íþróttum utanhúss fór fram á Laugardalsvelli laugardaginn 5. júní. Alls voru 44 keppendur skráðir til leiks frá 12 félögum. Að frátalinni svifryksmengun voru aðstæður góðar við mótið en sökum mengunarinnar var ákveðið að fella niður lengstu hlaupagreinarnar, 200m. og 400m. hlaup. Af þeim sökum var aðeins keppt í 100m. hlaupi, langstökki, kúluvarpi, hástökki og spjótkasti.

Sérstaka ánægju vakti á mótinu vaskleg endurkoma Hauks Gunnarssonar en kappinn reif fram skónna á nýjan leik og keppti fyrir hönd Suðra. Haukur keppir í flokki T37 og sýndi að hann hefur engu gleymt. Haukur er á meðal fremstu frjálsíþróttamanna í íþróttasögu fatlaðra á Íslandi og margfaldur verðlaunahafi hérlendis sem erlendis og hélt nokkrum heimsmetum í sínum ranni er ferill hans stóð sem hæst.

Þá voru þau Ingeborg Eide Garðarsdóttir, FH, og Baldur Ævar Baldursson, Snerpa, einnig mætt til leiks en bæði unnu þau til verðlauna á opna hollenska frjálsíþróttamótinu helgina 29.-30. maí síðastliðinn. Ingeborg náði sínum besta tíma á árinu í 100m. hlaupi er hún kom í mark á 17,51 sek. og Baldur bætti sig umtalsvert í langstökki frá mótinu í Hollandi er hann stökk 5,14m.

Kristófer Sigmarsson frá Eik á Akureyri vakti einnig verðskuldaða athygli á mótinu en Kristófer keppir í flokki þroskahamlaðra. Kraftmikill strákur að Norðan hér á ferðinni sem m.a. hljóp 100 metrana á rétt rúmum 13 sekúndum og skreið yfir 5 metrana í langstökkinu. Glæsilegur árangur hjá kappanum og verður spennandi að fylgjast með honum á næstu mótum.

Fleiri glæst tilþrif litu dagsins ljós á mótinu en Suðrasystur þær Hulda, Sigríður og María stálu senunni þegar þær systur komust allar þrjár saman á verðlaunapall. Þá kvað Hulda sér hljóðs á vellinum en þær systur komu færandi hendi. Stelpurnar búa í Mið-Mörk undir Eyjafjöllum og ef það er eitthvað sem þær eiga nóg af þessi misserin þá er það aska! Stelpurnar leystu mótsstjórn og fulltrúa stjórnar ÍF út með öskugjöfum en þær höfðu safnað saman ösku í nokkur ílát til gjafar. Þessi misserin er grátt um að litast á heimaslóðum systranna en það var enga grámyglu að sjá á þeim systrum við mótið enda annálaðir orkuboltar og fóru heim drekkhlaðnar verðlaunum að vanda.

Liðsmenn Eikar og Sigurjón Sigtryggsson frá Snerpu lentu í nokkru basli á leið sinni til Reykjavíkur. Töf varð á flugi hópsins að Norðan en Sigurjón og Eikarliðar börðu sér leið Suður og komust til mótsins þegar stökk- og kastgreinar voru að hefjast. Mótsstjórn heimilaði hópnum einnig að keppa í 100m. spretthlaupi en þar sem tímatökubúnaður mótsins var ekki lengur fyrir hendi voru hlaupin tímasett á skeiðklukku og því telst árangur þeirra í hlaupunum ekki lögleg úrslit.

Camilla Th. Hallgrímsson varaformaður ÍF setti mótið um síðustu helgi og hennar fyrsta verk við mótssetningu var að afhenda Kára Jónssyni silfurmerki ÍF. Hér að neðan fer umsögn um Kára:

Kári Jónsson er landsliðsþjálfari Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum íþróttum. Kári sem er lektor í íþróttafræðum við Háskóla Íslands hefur yfirgripsmikla reynslu af frjálsíþróttum sem keppandi, þjálfari, kennari og fræðimaður
Kári hefur stýrt íslensku afreksfólki úr röðum fatlaðra á erlendri grundu með glæsilegum árangri og verið ÍF veigamikill aðstoðarmaður í hinum ýmsu atriðum er tengjast frjálsum íþróttum.

Stjórn ÍF hefur einróma samþykkt að sæma Kára Jónsson Silfurmerki ÍF en það er veitt þeim einstaklingum, sem inna af höndum skipulags- stjórnunar eða þjónustustörf í þágu íþrótta fatlaðra.

Úrslit í sæti 1-3 á mótinu eru væntanleg síðar í dag og á morgun verða heildarúrslit mótsins aðgengileg hér á síðunni.

Mynd 1: Suðrasystur þær Hulda, María og Sigríður ásamt mótsstjórn og Camillu Th. Hallgrímsson varaformanni ÍF.
Mynd 2: Haukur Gunnarsson á sjöundu hæð í langstökkinu.
Mynd 3: Camilla Th. Hallgrímsson sæmir Kára Jónsson silfurmerki ÍF.