Fjölgun milli ára á Íslandsmótinu í frjálsum


Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum íþróttum utanhúss fer fram á Laugardalsvelli laugardaginn 5. júní næstkomandi. Mótið hefst kl. 10:00 og er ráðgert að því ljúki um kl. 14:00.

Keppt verður í 100, 200 og 400 m. hlaupi, langstökki með atrennu, kúluvarpi og hástökki. Að þessu sinni eru 12 félög sem skráð hafa keppendur til leiks og eru þeir 44 talsins. Það er nokkur fjölgun frá því í fyrra en 35 manns kepptu á mótinu á síðasta ári sem þá fór fram í Kópavogi.

Ljóst er að íþróttafólkið ætlar sér stóra hluti um helgina enda er fjöldi skráninga 141 og því margir að keppa í fleiri en einni grein.
 
Veðurspáin fyrir laugardaginn er góð en samkvæmt framtíðarspánni á að vera um 15 stiga hiti, alskýjað og vindur um 3m/s.

Ljósmynd/ Frá Íslandsmótinu í fyrra á Kópavogsvelli þar sem veðurguðirnir léku við hvurn sinn fingur.